Monday, May 26, 2008

Tónleikar: Sunset Rubdown og Kimya Dawson

Við vorum dugleg um helgina hvað tónleikaferðir varðar, ég náði að draga Hörpu með mér til Antwerpen á föstudaginn til að sjá hina stórgóðu sveit Sunset Rubdown, sem átti eina af bestu plötum síðasta árs að mínu mati. Spencer Krug, aðalmaðurinn í Sunset Rubdown (og annar aðalmaðurinn í Wolf Parade) er einn af snillingum þessarar kynslóðar og var magnað að sjá hann frussa út úr sér vönduðum textasmíðum á sama tíma og hann hamaðist á píanóinu og sparkaði í bassatrommu allt samtímis.
Tónleikarnir voru stórgóðir. Leigubílaþjónusta Antwerpenbúa leggur samt ekki alveg sama skilning í "please hurry, we have a train to catch" og flestir aðrir. Bílinn kom ekki fyrr en eftir tuttugu mínútur (og lét okkur þar með missa af næstsíðustu lestinni) og þegar hann kom loksins var hann bara að spjalla við einhvern félaga út á götu og lét sér fátt um finnast þótt "excuse me, we have a train to catch" væri endurtekið í sífellu. Við náðum þó lestinni, en þó ekki nema með því að hlaupa í gegn um alla lestarstöðina.
Á laugardaginn fórum við hinsvegar að sjá ofur-krúttið Kimya Dawson. Hún hefur getið sér það til frægðar að eiga lög í spútnik kvikmyndinni ofurvinsælu Juno. En við vorum auðvitað búin að hlusta á hana löngu fyrir það, síðasta plata hennar var Soundtrackið við Hálendisferðalag okkar síðasta sumar.
Hún var ægilegt krútt: Eins einlæg og hægt er, talaði mikið um dóttur sína "Panda" og hitt og þetta fólk sem enginn vissi hver voru. Virkilega góðir tónleikar.
Hárið hennar virtist vekja mikla athygli meðal tónleikagesta...

En ég vil hins vegar af gefnu tilefni vara fólk við "tónlistarmanninum" Bobby Sandal, en hann sá um upphitun fyrir Dawson. Þó hann sé belgískur er aldrei að vita nema að tónlist hans reki á fjörur ykkar ágætu lesenda, undarlegri hlutir hafa gerst.

VARIST! Bobby Sandal! Hann er hálfviti...

Thursday, May 15, 2008

Lífið í Brussel

Einhver var að kvarta yfir því að við værum að gera allt of mikið hérna úti og látum við því nú fylgja nokkrar myndir af okkar fábrotna lífi hér í Brussel. Hér sitjum við á torginu Place Luxemburg, sem fyrir innvígða segist Plux (mjög töff, ég veit). Mjög gott í seinni tíð með hlýnandi veðri að sitja í grasinu, því staðirnir í kring um Plux spila mjög vonda tónlist, mjög hátt.
Verra er þó hversu snemma sólin sest... Þetta fólk er btw. Martine, einhver stúlka úr norsku sendinefndinni sem ég man ekki hvað heitir og Maria.
Maðurinn í jakkafötunum heitir Erlend, en við höfðum fram að þessu haldið að hann héti Alan. Kemur þá á daginn að þegar Norðmenn vilja gera grín að Íslendingum tala þeir bara norsku, en bæta "-ur" við endan á öllum orðunum... Ég hef ekki einu sinni óljósan grun um hvaða fólk þetta er með honum á myndinni...

Harpa var búin að drekka nokkra bjóra og var farin að detta úr fókus annað veifið. Hún var að sjálfssögðu búin að nýta gríðarmikla reynslu sína af Austurvellinum og fann indverska búllu þar sem við keyptum kaldan bjór á mun lægra verði en fólk sem hafði mun lengri reynslu af Plux, þetta eru náttúrulega amatúrar!
Við bæði farin að detta úr fókus.
Ég held að þarna hafi Harpa verið að reyna að bíta af mér nefið.Við (ég?) vorum alveg sannfærð um að þetta væri plötuumslagsmynd í hæsta gæðaflokki.
Það var farið á lífið.

Síðar í vikunni var haldið svokallað "EFTA spring fling" þar sem setið var úti í garði í vinnunni og drukkið volgan bjór og vonda kampavínsbollu. Hörpu var þetta ekki samboðið og fór að sjá konuna með herðakistilinn og tvo aldraða vini hennar, þetta þríeyki hafði víst einhverntíman getið sér orðspor fyrir að hafa samið eitt eða tvö lög á síðustu öld. Hörpu fannst víst voða skemmtilegt að heyra einhverja konu úti í bæ syngja um hvað það elski hana enginn, en Spring flingið var sko líka mjög skemmtilegt!
Dæmi: Ung norsk stúlka sagði okkur sem sátum við eitt borð að útikerti væru hættuleg heilsu okkar, sem og farsímar myndu gera okkur ófrjó. Við tókum þessu semi-alvarlega og töluðum um meintar hættu þessara hluta með hálfkæringi. Stúlkan stóð þá upp og sagði hátt og snjallt "Well, I'm leaving, because you people suck!"
Og hún var ekki að grínast.
En Harpa fékk semsagt boðsmiða á Portishead og skemmti sér konunglega, hún getur kannski lýst því betur en ég í næsta bloggi. Við erum samt að fara að sjá Portishead aftur á Primavera í lok maí, Barcelona here we come!!!
Núna um helgina buðum við nokkrum krökkum í grill á sunnudaginn úti í garði sem er rétt hjá okkur.
Þetta eru Maria og Magnus.
Þetta fólk ættuð þið að þekkja orðið...

Erlend, Charlie og enn einn norðmaðurinn...
Egill heitir þessi...



Gítarinn var með í för... við Egill reyndum að halda uppi stemmingunni. En vorum ekki alveg búnir að þaulæfa prógrammið. Því verður kannski best lýst með performancinu á Lou Reed slagaranum "Perfect Day," en ég kunni bara viðlagið, sem Egill kunni ekki, en til allrar hamingju kunni hann versið... þannig að gítarinn var bara látinn ganga á milli...
Ég held að ég sé meira að segja að spila það þarna, alla vega C#m
Þarna má sjá bolinn sem Harpa gaf mér í afmælisgjöf!!! Hún virtist eitthvað undrandi þegar ég klæddi mig í hann um daginn þegar við fórum út... eins og þetta væri eitthvað grín, er ekki alveg að átta mig á þessu...
Þetta "monstrosoty" er gosbrunnurinn rétt hjá okkur. Harpa hefur heitið því að þar verði tekin "trainee sturta" áður en yfir lýkur.
Þessi mynd er tekin fyrir hjónin í Kaldbak, en þarna má sjá að "trjágirðingin" er að laufgast og lítur svona út í dag. Við munum birta update þegar dregur til frekari tíðinda á þessum vettvangi.

Harpa var svo annars að koma úr tveggja daga ferð til Lúxembúrgar. (Ég komst ekki, var með presentation í vinnunni). Þar var farið í presentation hjá EFTA dómstólnum og dómsmál og fleira skemmtilegt. Ég held samt að Hörpu hafi nú þótt skemmtilegast að fá frí í vinnunni og skoða nýja staði, þau fóru víst á einhvern ægilegan snobb hádegisverð í Nýlistasafninu.
Svo erum við byrjuð á fullu í frönskunni, en við erum alltaf svo busy að það lítur út fyrir að við náum ekki að mæta í nema helmingin af tímunum. Harpa sér mjög svo eftir þeim krónum... ég meina evrum.

Tuesday, May 13, 2008

Suður Frakkland Pt. I

Jájá, langt er síðan bloggað var síðast, hér mun því koma helvítis hellingur á næstu dögum. Prógrammið byrjar á för okkar til Suður-Frakklands. Við lentum í Perpignan eftir heljarinnar vesen með að koma tjaldinu í gegn um öryggishliðið (það tókst raunar ekki.) NB fyrir þá sem ætla að fljúga til eða frá "Brussel" með Ryanair skal tekið fram að flugvöllurinn er alls alls alls ekki í Brussel, langt því frá...
Rútan var tekin til Prades þar sem var stoppað stutt áður en gangan hófst. Áfangastaðurinn var þorpið Eos, sem þykir eitt það fallegasta í Frakklandi. Harpa var eitthvað svartsýn með veðrið þegar gangan hófst, enda hafði verið svalt í Brussel fram að þessu.
Þetta er nokkrum mínútum síðar.
Gangan var tekin með nokkrum pásum og notið útsýnisins.
Önnur pása.
Ég hafði einnig klætt mig of mikið og sá því Harpa tilefni til að smella mynd af mér klæðast í nýju stuttbuxurnar sem mamma og pabbi gáfu mér í afmælisgjöf. Takk fyrir mig, þær komu að góðum notum.

Bærinn er sannarlega fallegur.

Gróðursæll inni í görðum, en annars laus við allt annað líf, sáum varla eina manneskju í bænum allan tímann.
"Göturnar" þröngar.


Til sönnunar þess að við löbbuðum alla leið upp á topp, tók ég mynd inni í kirkjunni.
Og útsýnininu.

Skopps fann þar einnig draumahúsið sitt.
Þarna erum við í bæ sem ég man ekki alveg hvað heitir, en þar stöldruðum við við í smástund og tókum í spil og drukkum bjór.

Svo héldum við áfram á leið okkar.
Þar til við komum að öðru af "fallegustu þorpum Frakklands," Villefranche-de-Conflent. En það er eiginlega bara virki, tvær götur og stórir og þykkir veggir allt í kring.

Svo fórum við í nærliggjandi bæ, Corneilla de Conflent og gistum þar í tjaldi. Það var mjög kalt og óþægilegt.
Svo skoðuðum við okkur þarna um nærliggjandi sveitir. Við ætluðum að fara í suður, en til allrar lukku var okkur tjáð að það væri fjallaleið sem væri kannski ef til vill nokkuð torfær. Í staðinn fórum við upp á við.

Suður Frakkland Pt. II

Það var ágætis kona sem skutlaði okkur áfram á leið okkar. Hún talaði litla frönsku, en við vorum sammála um að útsýnið væri trés jolie. Þarna erum við komin í annað af "fallegustu þorpum Frakklands," þó að þau þorp á leiðinni hafi ekki verið síður myndarleg. Ef myndin er stækkuð má sjá að íbúatalan þarna er ekki sérlega há.
Útsýnið glæsilegt.

Þarna eru göturnar líka í þrengra lagi.

Þarna erum við komin í kastalann í Mosset.


Svo héldum við í óvissuna, við vissum í raun ekkert hvað beið okkar, hvernig vegur þetta var, hversu mikil umferð og í rauninni aðeins óljósan grun um hversu langt var í næsta bæ.
Litið aftur í hinsta sinn.

En sjá!!! Þarna erum við komin upp í rúmlega 1500 metra hæð, hvernig skyldi það hafa gerst?
Leiðin niður var dásamleg, það keyrðu um það bil fimm bílar framhjá okkur í einhverja klukkutíma.
Okkur var nokkuð sama um einveruna.
En þarna erum við komin í bæ sem mig minnir að sé Axat. Leiðin þangað var stórkostleg. Á leiðinni niður af fjallinu gengum við framhjá konu sem var úti að ganga með hundinn sinn og fundum við ilmvatnslyktina af henni í opinni náttúrunni yfir veginn. Hún tók okkur svo upp í, sagði eitthvað um "ne pas peu á chien" og keyrði okkur að heimabæ sínum Conozouls og bauð okkur þar upp á vatn og djús. Hún var ægilega stolt af heimabæ sínum (sem var NB glæsilegur) en við ætluðum að halda áfram og gerði hún sér því lítið fyrir og skutlaði okkur til Axat. Útsýnið á leiðinni var vægast sagt dásamlegt og keyrðum við í gegn um gil sem er eitthvað það myndarlegasta sem sést hefur.
Í Axat var tekið í spil við ánna og drukkið bjór.


Þar sem veitingastaðir í Axat voru lokaðir héldum við bara áfram á leið okkar. Við þáðum far hjá ungu pari sem keyrði um á pínulitlum tveggja dyra fólksbíl fullum af drasli og afar vinalegum hundi. Parið var stórkostlega undarlegt, stelpan hlæjandi eins og geðsjúklingur allan tíman, náunginn í sífellu að skamma hundinn fyrir að færa sig. Greyi hundurinn var í kremju á milli okkar Hörpu og tók þá skyndilega að sleikja á mér lærið af mikilli áfergju, en sökum þess að ég var skorðaður þéttingsfast með bakpokann í fanginu var mér lífsins ómögulegt að fá dýrið til að láta af ástaratlotum sínum og var rennblautur á fótunum þegar við loksins komumst á áfangastað...
Þarna erum við komin til Caudiés de Fenouledes, þar splæstum við á okkur út að borða á local veitingastað, fengum okkur local vín og local rétti og að sjálfssögðu franska súkkulaðiköku.
Tjaldsvæðið í bænum var lokað en við notuðum það nú bara samt, Harpa var dálítið stressuð.
Áfram héldum við á leið okkar til Éstagel. Fengum far hjá ofur-töffurum sem hlustuðu á franskt rapp á hæsta hljóðstyrk alla leiðina.
Þar fundum við heimagistingu hjá hjónakornum sem tóku sérdeilis vel á móti okkur, jafnvel þó við höfum prúttað niður verðið. Þau voru með stóran garð og hund sem var býsna gáskafullur.



Mjög cosy staður, þar héngum við í sólbaði allann daginn og tókum því rólega. Daginn eftir brasaði hún handa okkur veglegan morgunverð, sem innihélt meðal annars local delicatessenið sem var einhvers konar ostur (líkara skyri) með hunangi.
Kirkjan í bænum.
Daginn eftir ákváðum við að fara í rútu.
Fórum aftur til Perpignan og ákváðum að skella okkur bara suðureftir. Fjallaþorpin þar voru alveg ágæt, en eftir að hafa séð svo mörg slík áður vorum við ekki alveg sannfærð. Eftir að hafa farið tveimur stoppum lengra en miðinn okkar sagði til um ákváðum við að angra bílstjórann ekki meir og fórum út. Svo tókum við skólabíl til Argéles sur Mer.
Eins og þeir sem mælandi eru á frönsku gætu hafa gert sér í hugarlund, þá er sá bær við hafið.


Svolítil strandbæjarstemming þar, en sætur bær engu að síður.

Hótelið var glæsilegt. Skopps að stelast til að leggja sig, mikill prakkarasvipur þarna í gangi.
Kirkjan í Argéles. Ég reyndi nú samt sem áður að gefa Hörpu frið fyrir kirkjumyndatökum en stundum gat ég ekki staðið á mér.


Aftur komin á Hótelið og viti menn! þar voru tekin upp spil.
Sautjánan í Perpignan.
Harpa var ekki alveg nógu sátt með að ég vildi labba í fimm mínútur á lestarstöðina í Perpignan, sem Salvador Dali sagði að væri "miðstöð heimsins." Í staðinn löbbuðum við í einhverja tvo klukkutíma í leit að veitingastað sem væri henni samboðin, til þess eins að fara aftur á fyrsta veitingastaðinn sem við sáum, en viti menn! Þá var hann lokaður...
Við tókum í spil í Perpignan á kaffihúsi.
Þarna er kastalinn í Perpignan.





Og þar var að sjálfsögu tekið í spil.
Ferðin á enda, við biðum eftir flugvallarútunni á Kebab búllu og jú, þar var tekið í spil.