Hér fylgja nokkrar myndir. Ljósmyndaáhugamenn og atvinnumenn varist! Þessi myndavél er ekki með flassi, né nokkrum öðrum eiginleikum sem gera myndir fallegar...

Kauphöllin hér í Brussel er býsna forn, en hún var stofnuð á Napóleons tímum árið 1801.

Þarna erum við komin á Botanique, sem er tónleikastaður... Þarna fengum við okkur bjór í góðu yfirlæti.

Þegar við snérum aftur eftir tvo drykki voru þessir fýlupokar stignir á svið... Þeir tóku einhver tvö lög í viðbót eftir að við komum og svo "thank you goodnight"... Sé mjög svo eftir þessum 12 evrum, Svenn, sá sem dró okkur á tónleikana, var niðurbrotinn yfir þessu...
já, btw. varist hljómsveitina White Williams.
Þarna fórum við á verslunargötu við lestarstöðina sem kennd er við norður. Þessi gata er frábrugðin fjölfarnari verslunargötum, en þessari væri best lýst sem "ethnic" skransölugata.
Þarna voru allskyns vörur, múslímsk klæði, útsöluskór, arabísk tónlist, erótískur varningur, kebab og...
...vöfflur að sjálfssögðu.

Þeirra mun ég sakna hvað mest þegar ég fer héðan, og mér sýnist Harpa vera á sama máli af myndinn að dæma.

Hún bara sleppir henni ekki!

Yfirvaraskeggstímabilið mitt entist í um 30 sekúndur.

Þessi garður er skammt frá Schuman torginu í Brussel og er býsna stór og mikill.

Jubilee park heitir hann. Þessi bogi var reistur þar til að fagna 50 ára afmæli sjálfstæðis Belgíu, en það var árið 1880.

Til Brussel koma gjarnar reiðir vöruflutningamenn, bændur og sjómenn og mótmæla háu eldsneytisverði. Þá eru gjarnar sett upp gaddavírs grindur einhverskonar og mikil læti skapast hér... Ekki veit ég þó hvað Evrópusambandið getur beinlínis gert fyrir þetta örugglega ágæta fólk.

Við fórum í pool um daginn. Staðan er enn 1-1 hjá mér og Skopps... Úrslitin urðu að bíða betri tíma. Fljótlega fór vinafólk okkar að tínast inn og innbyrgðum bjórum að fjölga...

Þarna sitjum við úti á götu fyrir framan Kebab stað að horfa á Rússland - Holland. Kærasta Daníels, Gabriela, á rætur að rekja til Rússlands, en við hin höfðum notið góðrar spilamennsku nágranna okkar... andrúmsloftið var því skiljanlega tilfinningaþrungið.

Vertinn á kebabstaðnum var mikill vinur okkar og stígur hér Daniel dans við hann. Vertinn var svo ánægður að fá okkur að hann gaf okkur franskar, rak fólk frá sjónvarpinu, kveikti og slökkti ljósin til að fá fyrir okkur bestu lýsinguna og bauð okkur meira að segja að taka frá fyrir okkur borð fyrir næstu leiki...

Um helgina fórum við svo í einhvern risastóran "garð" í Brussel, sem líkist reyndar meira skógi.

Þar gerðum við okkur heimakær með heimagert túnfisksalat og...

...frönskubækur. Tekið skal fram að námið sækist hægt.

Við Skopps tókum upp á því að baka um daginn og buðum nágrönnum okkar að bragða á afrakstrinum. Einróma álit gesta var að vel hefði tekist til.

Svo skruppum við til Leuven um daginn og þar má sjá býsna fallegar og tilkomumiklar byggingar.

Vinafólk foreldra minna bauð okkur þangað og fóru með okkur á dýrindis steikhús.
Við erum svo búin að bóka miða til Azerbaijan þegar við ljúkum okkar starfi hér. Svo einnig erum við búin að kaupa okkur lestarmiða til Parísar í dagsferð.
Svo vil ég af gefnu tilefni minna á kommentaskyldu sem á þessari síðu er!